Þó margt hafi breyst í stjórnmálamenningunni hér á Íslandi til batnaðar í kjölfar hrunsins er annað sem hefur valdið vonbrigðum. Eitt er það að vantraust í garð stjórnmálanna hefur skilað sér í minnkaðri stjórnmálaþátttöku almennings. Þar hafa flokkarnir sjálfir reyndar ekki hjálpað til (hinn að ýmsu leyti jákvæði Besti flokkur er til dæmis ansi lokaður klúbbur sem hefur ekki virkjað fjöldann þó alþýðlegur sé) en venjulega þegar maður treystir öðrum ekki til að gera eitthvað þá stígur maður fram sjálfur og gerir það.

Nú bregður hins vegar svo við að í stað þess að almenningur nýti tækifærin sem hafa gefist til að krefjast aukinna valda og hreinlega taka þau til sín eftir því sem hægt er, með því að til að mynda taka þátt í flokksstarfi, hefur hann þvert á móti gert auknar kröfur, utan frá, til nákvæmlega sama stjórnmálasviðs og brást þeim. Þegar almenningi finnst stjórnmálamenn bregðast vill hann réttilega fá að stöðva þá af (eins og gerðist t.d. í Icesave-málinu), en það er hreinlega ekki nóg til að breyta landslaginu til frambúðar. Öryggisventlar af þessu tagi tryggja ákveðna aðkomu almennings að stjórnmálunum umfram kosningar á fjögurra ára fresti en þeir tryggja ekki að betri hugmyndir komi fram en þær sem almenningur nær að stoppa af.

Þetta hefur sannast rækilega á þessu kjörtímabili með því að hinar miklu væntingar sem Framsóknarflokkurinn blés upp um að núna væru komnar hinar réttu patentlausnir almúganum til hagsbóta virðast engan veginn standast. Enn og aftur er almenningur farinn að vantreysta ríkisstjórninni og ég geri fastlega ráð fyrir að víða ríki hreinlega allsherjar uppgjöf, ekki síst þar sem þessi ríkisstjórn virðist ekki einu sinni hafa áhuga á að virkja almenning með jafn einföldum leiðum og þjóðaratkvæðagreiðslum.

Ég hef mótað með mér þetta sjónarhorn ekki síst vegna reynslu af því að starfa í stjórnmálum ‘innan frá’. Þó svo að meðal þeirrar hreyfingar sem ég tilheyri, Pírötum, sé margt gott fólk og nóg að gerast er samt ekki nema lítið brot af þeim sem kaus flokkinn virkir meðlimir. Ástandið er án efa svipað annars staðar.  Stjórnmálahreyfingar eiga að mínu mati hins vegar ekki að vera tiltölulega litlir klúbbar heldur fjöldahreyfingar. Svo ég plöggi aðeins Pírötum þá eru þeir beinlínis hugsaðir þannig; Píratar vilja virkja grasrótina. Hún sprettur best þegar hún er vökvuð af sem flestum. Hérna vil ég líka minna á að sinnuleysi almúgans gagnvart stjórnmálunum gefur tali um að beint lýðræði virki ekki í raun byr undir báða vængi, eins og sjá má hér. Eins og ég segi þá helst þetta svo mikið í hendur. Ef almúginn er ekki duglegur við að nýta sér þær leiðir sem bjóðast til að hafa áhrif á stjórnmálin er í sjálfu sér ekki svo óeðlilegt að stjórnmálamenn telji sig hreinlega þurfa að bera ábyrgðina (eða með öðrum orðum hafa völdin).

Ég veit hins vegar vel að það er fullt af fólki sem hefur áhuga á að leggja sitt af mörkum bara ef það skynjar að það er velkomið. Í stuttu máli vil ég hreinlega hvetja alla sem hafa áhuga á og tíma til að taka þátt í flokssstarfi til að gera það. Finnið ykkur eitthvað sem höfðar til ykkar og hreinlega bankið upp á dyrnar og sjá hvernig ykkur er tekið. Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar og það er alveg kjörinn tími til að reyna þetta þar sem í kringum kosningar fer flokksstarf á fullt.

Ekki húka úti í kuldanum og kvarta þegar þið getið komið inn í hlýjuna og kvartað þar!

Í útvarpsviðtali um daginn sagði forsætisráðherra að ákveðin umræða sem hann er sjálfur ósáttur við væri nánast hættuleg lýðræðinu.

Þetta lýsir að mínu mati frekar undarlegum skilningi á hugtakinu lýðræði, sem ég hélt að þýddi bara hreinlega að lýðurinn ræður, til hins betra eða verra. Stundum getur lýðurinn verið óttalegur skríll, og í opinberri umræðu er það stundum ómálefnalegasta gólið sem vekur mesta athyglina. Það er nákvæmlega ekkert nýtt í því, sérstaklega í kjölfar hrunsins ‘svokallaða’ sem opnaði á flóðgáttir ringulreiðar, pirrings og vantrausts í garð stjórnmálamanna. Af tvennu illu kýs ég þó sjálfur öflugt aðhald lýðsins en sinnuleysi hans, enda veit hann oftar en ekki sínu viti þó það henti þeim sem vilja gera lítið úr honum að einblína á það ómálefnalegasta sem frá honum kemur. Aðhaldið breytir líka þegar grannt er skoðað frekar litlu um hvaða formlegu völd ríkisstjórnir hafa, svo lengi sem þær hanga saman – og miðað við tal forsætisráðherra um samheldni stjórnarflokkanna ætti hann með réttu alls ekki að vera farinn að óttast þann möguleika að hún leysist upp.

Allt sem forsætisráðherrann hefur látið frá sér fara um hvernig hann sér þessa hluti fyrir sér bendir hins vegar til þess að hann kjósi samt sem áður frekar sinnuleysið, sem hann kallar reyndar samstöðu. Þetta er gott dæmi um hvernig valdhafar reyna að eigna sér orð sem með réttu eru lýðsins. Samstaða er ekki fyrirskipuð að ofan; hún er sjálfsprottin meðal almennra borgara sem flykkja sér um sameiginleg hugðarefni, á borð við að bölva ríkisstjórinni sem Virkir í athugasemdum.

Verk forsætisráðherra og ríkisstjórnar hans hingað til lofa síðan ekki góðu hvað virðingu fyrir lýðræðinu varðar. Enginn áhugi er til að mynda sýndur á því að láta nokkurt einasta mál fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í tíð fyrri ríkisstjórnar fóru Framsóknarmenn margir hverjir mikinn í því að knýja á að sú stjórn héldi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar við ESB, en núna þegar þeir geta stjórnað þessu sjálfir þarf auðvitað ekki að spyrja lýðinn nokkurs. Núna áskilja þeir sér ‘rétt’ til að halda ekki viðræðunum áfram (sem þeir vilja ekki gera hvort eð er) nema að spyrja lýðinn leyfis áður. ‘Beint lýðræði’ sem er ekkert annað en öryggisventill gagnvart því að valdhafar geri ekki það sem þeir vilja ekki gera getur aldrei talist annað en skrípaleikur og skrum. Svipað má segja um hástemmd kosningaloforð sem dregst síðan að mati óþolinmóðs almúgans að uppfylla; það er ekkert óeðlilegt að miðað við núverandi stöðu mála upplifi margir kjósendur sig illa svikna.

Orðræðu og aðferðum af þessu tagi ber fólki í raun borgaraleg skylda til að mótmæla hástöfum á hvaða vettvangi sem það hefur til þess. Það er því ekki nema furða þó að um holt og hæðir heyrist nú kallað: Vér mótmælum allir! Það er ekkert hættulegt lýðræðinu þó ráðamönnum finnist það sumpart ósanngjarnt. Það er hins vegar mjög hættulegt lýðræðinu að valdhafar vilji vera það einangraðir frá lýðnum að þeir líði ekki einu sinni hróp hans og köll.

Það er ekkert launungarmál að Bubbi Morthens er mjög á móti niðurhali á afþreyingarefni á netinu. Pistill hans í dag kom mér því lítið á óvart en þó kom mér á óvart að þarna virðist hann ráðast ekki bara gegn ókeypis dreifingu tónlistar heldur gegn því að fólk kaupi sér hana löglega með leiðum sem honum hugnast sjálfum illa. Það kemur mér líka á óvart hvað rökin varðandi það eru slöpp og byggðar á veikum fullyrðingum.

Til dæmis hefur hann eftir David Byrne hversu lítið Daft Punk fengu í sinn hlut vegna spilunar á laginu Get Lucky á Spotify (sem er reyndar tala sem má draga í efa) og heldur því fram að þeir piltar væru milljónamæringar ef þeir hefðu gefið lagið út sem smáskífu. Það er alveg hreint ótrúlega óheppilegt dæmi þar sem þetta eru með ríkustu tónlistarmönnum veraldar, og megnið af því ríkidæmi varð til á mjög netvæddum tímum. Þeir nýta einfaldlega tæknina til að koma tónlist sinni á framfæri og græða. Get Lucky og platan sem það er á, Random Access Memories, eru til á YouTube og þar getur hver sem er hlustað á það hvenær sem er algjörlega ókeypis. Allt er það löglegt enda er YouTube duglegt við að fylgja höfundarréttarlögum eftir. Samkvæmt þeim rökum að slíkt ókeypis aðgengi grafi gríðarlega undan tekjutækifærum tónlistarmanna ætti í raun að vera ótrúlegt að Daft Punk séu að græða eitthvað yfir höfuð í gegnum veitur á borð við Spotify.

Einnig má í þessu sambandi nefna að það er í raun ekkert nýtt að milliliðir taki óhóflega mikið af tónlistarmönnum og þeim finnist þeir hlunnfarnir. Dr. Gunni hefur til að mynda rakið hvernig STEF hefur gagnast honum (eða ekki) við að innheimta tekjur af útvarpsspilun. Að gera tæknina að blóraböggli er því mjög ósanngjarnt gagnvart þeim sem nýta sér hana á heiðarlegan hátt, hvað þá þegar talað er um þjófnað í slíku samhengi eins og Bubbi gerir leynt og ljóst. Nú er ekki þar með sagt að þessari nýju tækni fylgi ekki ákveðin efnahagsleg vandamál og siðferðileg álitamál, sérstaklega á jafn litlum markaði og sá íslenski er – en svona málflutningur er ekki gott innlegg í umræðu um þau.

Hið furðulegasta í pistlinum er þó líklegast þessi fullyrðing:

Ef ég kaupi málverk eftir Kjarval og geri síðan eftirprentanir og býð öllum sem vilja að fá sér eintak þá yrði ég stöðvaður og ákærður.

Hér er Bubbi greinilega að halda því fram að sá sem myndi dreifa eftirprentunum af Kjarvalsmálverki ókeypis til allra sem vilja yrði handtekinn og ákærður. Ég ætla því einfaldlega að láta reyna á þá þetta með því að birta hér slíka eftirprentun og bjóða hverjum sem vill að afrita og dreifa áfram eins og viðkomandi sýnist:

Johannes_S._Kjarval-i_Moskvu

 

Þetta eintak bjó ég annars ekki til sjálfur heldur fékk ég það bara einfaldlega af netinu, þar sem til eru margar eftirprentanir af verkum Kjarvals fyrir. Þeir eru því greinilega margir, glæpirnir á netinu.

Síðastliðinn fimmtudag birtist í DV viðtal við Hildi Sverrisdóttur, sem tók sæti sem borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar Gísli Marteinn Baldursson steig til hliðar. Þar sem ég er áskrifandi að DV hef ég aðgang að öllu viðtalinu og ætla að vitna í valinn kafla úr því og gera að umtalsefni. Ég vona að mér leyfist það og bæti upp þennan leka með að hvetja fólk til að gerast áskrifendur svo það geti lesið allt viðtalið.

Orðin eru þessi:

Beint lýðræði er alltaf meirihlutalýðræði. Það er nauðsynlegt að taka samtal við borgarbúa, það má hins vegar ekki verða þannig að fáir borgarbúa tali hæst og taki völdin af þeim sem hafa ekki sömu tækifæri til þátttöku. Ég nefni sem hugsanleg dæmi, innflytjendur, aldraða og þá sem eiga ekki heimangengt. Stjórnmálamenn eru hugsjónamenn, þeir eru valdir af borgar­búum til að sinna þörfum þeirra allra. Ekki bara þeirra háværustu.

Ég veit að fólk er ólíkt. Sumir vilja taka þátt. Sumir nenna því alls ekki eða hafa ekki tíma. Hvað erum við að segja? Erum við að segja að það bætist við foreldrahlutverkið að liggja yfir öllum skýrslum og bókhaldi af því þú getur ekki treyst því að kjörnir fulltrúar geri það fyrir þig?

Eiga þeir að taka ábyrgð á henni? Ég held að það skapi óþarfa álag á marga ef þeir geti ekki treyst því að réttindi þeirra verði ekki á einhvern hátt hlunnfarin því þeir höfðu ekki tíma til að mæta á íbúafund. Á meðan við erum með fulltrúalýðræði verðum við að bera virðingu fyrir því að það séu fyrst og fremst kjörnir fulltrúar sem bera ábyrgðina þrátt fyrir að samráð sé oft nauðsynlegt.

Við þetta er sitthvað að athuga.

Meginrökin þarna eru um hættuna á því að þeir sem hafa ekki tækifæri til eða áhuga á að taka þátt í beinu lýðræði séu hlunnfarnir. Það verði að vera hægt að treysta kjörnum fulltrúum til að sinna þörfum allra enda séu þeir í vinnu við það og ekki sé hægt að ætlast til að allir hafi tíma eða tækifæri til að liggja yfir gögnum og taka ákvarðanir um allt. Hildur segir samráð mikilvægt en virðist stilla því upp á móti beinu lýðræði. Annað hvort höfum við kerfi þar sem kjörnir fulltrúar taka ákvarðnir og hafa eftir atvikum einhvers konar samráð við kjósendur eða þá kerfi þar sem eiginlega ákvarðanataka er að miklu leyti í höndum kjósenda. Staðreyndin er hins vegar sú að þarna á milli er ansi vítt róf.

Þegar talað er um beint lýðræði er vissulega oft átt við að fólk kjósi beint um hinar og þessar ákvarðanir en sjálfur vil ég hugsa þetta töluvert víðar. Grundvallaratriði er að til séu skýr og stjórnsýslulega formleg ferli fyrir almenning til að verja réttindi sín og hafa einhvers konar aðkomu að umræðu og ákvarðanatöku. Einnig að gögn séu aðgengileg til að þeir sem hafa áhuga á og tíma til að liggja yfir þeim geti það og síðan gert athugasemdir við þau eða jafnvel miðlað til annarra á einfaldan hátt. Mér er sama hvað það er kallað en tel að beint lýðræði sé ágætt almennt hugtak yfir svona formleg ferli sem færa kjósendum aukinn sjálfsákvörðunarrétt.

Vissulega er þarna að mörgu að hyggja og hættan á að sumir verði útundan er eitt af því. Hins vegar er sú hætta líka til staðar þegar kjörnir fulltrúar sjá um málin þó Hildur vilji greinilega gera lítið úr henni með því að höfða til þess að pólitíkusar séu í starfi sínu af hugsjón. Jafnvel þó fallist sé á að þannig sé málum alltaf háttað hefur fólk ekkert greiðari aðgang að kjörnum fulltrúum en ferlum sem lúta að beinu lýðræði – og sá aðgangur sem er til staðar tryggir engan veginn á formlegan hátt að allar raddir fái að heyrast. Þess fyrir utan hljóta flestar ákvarðanir sem snúast um að velja eitt fram yfir annað að vera í ósætti við einhvern hluta þeirra sem þær hafa áhrif á og þá skiptir ekkert endilega alltaf höfuðmáli hvort það eru kjörnir fulltrúar eða kjósendur sem taka þær; aðalmálið hlýtur að vera að huga að sanngirni eins vel og kostur er á. Þetta liggur sumsé í eðli lýðræðsins í sjálfu sér, hvort sem það er fulltrúalýðræði eða beint lýðræði.

Þegar maðurinn sem Hildur tók við af hvarf til annarra starfa lét hann þau fleygu orð falla að við erum öll borgarfulltrúar. Þar átti hann við að víðar en í borgarstjórn er hugsjónafólk sem hefur tíma og getu til að setja sig inn í mál. Því fólki er varla síður treystandi til að huga að réttindum og hagsmunum annarra en kjörnum fulltrúum – og formleg ferli þar sem allir sem vilja geta verið að einhverju leyti borgarfulltrúar eru varla líklegri til að valta yfir einhverja en þau ferli sem nú eru til staðar, séu þau rétt hugsuð og útfærð. Margir sem minna mega sín eiga sér síðan hagsmunasamtök sem myndu njóta góðs af fleiri leiðum til að berjast fyrir skjólstæðinga sína.

Endanlega ábyrgðin þarf líka engan veginn að færast af hendi kjörinna fulltrúa þó þeir opni aðeins ákvarðanatökuferlið. Þar má líka hafa í huga að völd og ábyrgð haldast í hendur þannig að það er fyllilega eðlilegt að þegar kjörnir fulltrúar afsala sér völdum yfir einhverju færist ábyrgðin með. Í raun er bara verið að segja sama hlutinn á mismunandi hátt, enda notar Hildur sjálf orðið völd þegar hún segir hversu slæmt það sé að einhver óskilgreindur hópur kjósenda (sem er greinilega að mati Hildar síður treystandi til að vera hugsjónafólk en kjörnum fulltrúum) valti yfir annan. Það hljómar bara betur þegar stjórnmálamenn tala um að þeir þurfi að bera ábyrgð en þegar þeir segjast þurfa hafa völd.

Ég hef aðeins verið að melta pistilinn sem Egill ‘Gillz’ skrifaði í gær um grínið sitt, tilgang þess og afstöðu sína til þess þegar hann lítur til baka. Pistillinn er ekki alslæmur og ég trúi því ágætlega að maðurinn iðrist þess í raun og veru að hafa farið yfir strikið við og við.

Það sem ég hef hins vegar mest við þennan pistil að athuga er að Gillz heldur þarna áfram að stilla upp þeim andstæðum sem hann hefur alltaf staðið frekar fastur á að viðhalda. Það er annars vegar fólk eins og hann sem vill halda í frekar hefðbundin kynjahlutverk og hins vegar ‘hugsjónafólkið’ sem vill afmá þau og um leið afmá tilverurétt fólks eins og Gillz og menningu þess, sem snýst um frekar einfalda og ‘yfirborðskennda’ hluti. Þarna virðist ekkert sérstaklega mikið rúm fyrir málamiðlanir. Gillz segir berum orðum að hann hafi farið út í grín sitt sem viðbrögð við þeirri ógn sem hann taldi sér og sinni menningu stafa af hinum andstæða póli. Þannig er grínið greinilega ekki bara létt grín heldur liður í baráttu fyrir ákveðnum gildum og gegn ákveðnum öðrum gildum.

Slík átakamiðuð nálgun hlýtur eðli málsins samkvæmt að kalla á frekari átök. Nú má deila endalaust um hversu sanngjarnt það er að halda á lofti gömlum skrifum Gillz árum saman en staðreyndin er engu að síður sú að Gillz ákvað sjálfur á sínum tíma að taka þennan slag. Hann kaus af eigin vilja að stíga fram sem Jólakúksboðberi baráttu gegn feminisma og nafngreindum feministum. Hann kaus líka af eigin vilja að upphefja sinn eigin menningarkima á kostnað annarra menningarkima með uppnefnum og niðurlægingu í garð þeirra sem tilheyra þeim. Hnakki eða trefill – er valið ekki augljóst? Annars vegar alvöru menn og hins vegar hálfgerðir væsklar. Þó allt sé það sett fram í ‘gríni’ er undirliggjandi alvaran samt greinileg.

Annað skýrt dæmi um þessa átakanálgun sem greinilega er enn til staðar hjá Gillz mátti sjá í Monitorviðtali við hann:

Já, ég er fín fyrirmynd. Eða ég vona það. Hvað er fyrirmynd? Þeir sem eru alltaf að tönglast á að einhver sé vond fyrirmynd hafa örugglega frekar takmarkaða trú á ungu fólki. Ég veit að vinstrisinnaðir femínistar eru ekkert sammála því að ég sé góð fyrirmynd. Mér finnst ólíklegt að það muni gerast að ungir strákar velji sér einhverjar lopahúfur sem fyrirmyndir. Er eitthvað að því að ungir strákar velji sér fyrirmynd sem er reyklaus, dóplaus, í góðu formi og neiti að láta valta yfir sig?

Þarna er hann spurður að því hvort hann telji sig góða fyrirmynd og þar lætur hann sér ekki nægja að segja að hann telji svo vera heldur gerir hann lítið úr ‘andstæðingum’ sínum og uppnefnir þá í leiðinni. Þeir geti nú tæpast verið góðar fyrirmyndir.

Satt best að segja er mér eiginlega fyrirmunað að skilja af hverju Gillz viðheldur ennþá þessari skiptingu þrátt fyrir að hafa vissulega þroskast og mildast í málflutningi sínum að mörgu öðru leyti. Ég tel hana nefnilega vera stærsta undirliggjandi vandamálið við viðhorf hans og málflutning.

Sem táknmynd baráttu fyrir ákveðnum gildum og menningu tel ég karaktera á borð við Gillz eiga rétt á sér þó ég sé sjálfur ekki mjög hallur undir þau gildi og menningu – á hnakka vs. treflaskalanum er ég mun nær því að vera trefill.

Þegar baráttan snýst hins vegar ekki síst um að vega gagngert að öðrum gildum og menningu snýst hún upp í andhverfu sína – þá er hún farin að vinna gegn þeim fjölbreytileika sem henni er ætlað að standa fyrir. Fólk á að fá að velja sjálft hvort það vill vera hnakkar eða treflar (og allt þar á milli eða jafnvel fyrir utan skalann), og velja sér þær fyrirmyndir sem þeim finnst bestar. Maður sem finnst að frelsi sínu til að vera hann sjálfur vegið ætti með réttu að skilja þetta manna best.

Nú eru liðnir um fimm mánuðir síðan ég hætti alfarið að drekka og ég hef aldrei verið sáttari með nokkra ákvörðun. Þó vissulega sé hægt að gera margt heimskulegt og skaðlegt sjálfum sér og öðrum edrú er það mun auðveldara undir áhrifum – svo var allavega raunin hjá mér og ég finn mjög áþreifanlega fyrir því þegar ég hef samanburð.

Munurinn felst líka í því að ég var eiginlega haldinn hálfgerðri sjálfseyðingarhvöt lengi vel og þótti í raun að vissu leyti bara fínt að skaða sjálfan mig og þá oft aðra í leiðinni. Hér er ég ekki að tala um ‘grafalvarlega’ hluti en nógu alvarlega til að rík ástæða sé til að sjá eftir þeim. Sjálfseyðingarhvötin er núna horfin en hvarf ekki almennilega nema með því að skrúfa fyrir það sem einna helst fóðraði hana – áfengið.

Það er til fullt af fólki sem getur drukkið áfengi sér og öðrum að meinalausu en ég tel mig ekki vera einn þeirra. Mér finnst skemmtilegra að sleppa þessu og held að öðrum þyki ég skemmtilegri líka. Það er fyrir öllu.

Í svari iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur um álver í Helguvík, og reyndar fyrirspurninni sjálfri, afhjúpast merkilegt viðhorf.

Það viðhorf virðist byggjast á því að alls kyns ‘hindranir’ standi því fyrir þrifum að erlend fyrirtæki geti reist hér álver og að það sé hlutverk ríkisstjórnarinnar að gera nákvæmlega allt sem hún getur til að ryðja þeim ‘hindrunum’ úr vegi. Þetta er reyndar ekki nýtt viðhorf; það mátti meðal annars sjá hjá fráfarandi iðnaðarráðherra. Hindranirnar virðast þarna aðallega snúast um að ekki sé víst að álverinu verði tryggt rafmagn – og væntanlega er það ein helsta hindrunin sem núverandi stjórnvöld telja standa í vegi fyrir þessu bráðnauðsynlega verkefni, þó ráðherra svari nú reyndar engu um það efnislega. Aðalmálið er greinilega gleðin yfir því að Century Aluminum sé til í þetta og að það eigi að halda þeim góðum með öllum mögulegum leiðum.

Nú er það staðreynd sem væntanlega hefur farið framhjá fáum að núverandi stjórnvöld leggja mikla áherslu á fullveldi lands og þjóðar og sjálfstæði gagnvart erlendu valdi og skammstafanastofnunum. Þetta er líklega það stef sem stjórnarflokkarnir tveir eru hvað mest samstíga í og eiga fylgi sitt að þakka að miklu leyti, ekki síst Framsóknarflokkurinn sem lagði ríka áherslu á að gagnrýna síðustu ríkisstjórn fyrir að gefa of mikið eftir gagnvart erlendum samningsaðilum í Icesavedeilunni. Það skýtur því að mínu mati mjög skökku við að sjá það viðhorf boðað grímulaust gagnvart erlendum álfyrirtækjum að stjórnvöld muni gera hvað sem er til að greiða götu þeirra.

Það er nefnilega einnig vel þekkt staðreynd að arðbærni álframleiðslu hefur dregist saman og mun halda áfram að dragast saman í náinni framtíð að mati sérfræðinga. Öll álframleiðslufyrirtæki með viti eru því núna að leita leiða til að auka hagkvæmni og ná upp arðbærninni eins og mögulegt er. Góð leið til að gera það er að leita til ríkja sem hafa sýnt það ríkan vilja til að fá álver í hin og þessi byggðarlög að ekki er útlit fyrir því að þau muni beinlínis sýna einhverja hörku í samningum um kaup og kjör á borð við raforkuverð og skattívilnanir. Íslensk stjórnvöld hafa alltaf gefið það út með frekar skýrum hætti að það er markmið í sjálfu sér að fá álver í nánast öll byggðarlög þar sem einhver er tilbúinn til að náðarsamlegast reisa eitt slíkt. Litið er á þetta sem greiða gagnvart okkur Íslendingum og viðkomandi byggðarlagi.

Þannig er því miður í raun fátt nýtt í þessu viðhorfi, nema kannski helst hversu afdráttarlaust það er orðað og það einmitt á tímum þar sem það er einmitt í raun ekkert sérstaklega aðkallandi að fá fleiri álver. Það er engin ástæða til að tala eins og álfyrirtækin séu að gera okkur greiða með því að byggja álver hérna. Það erum við sem erum að gera þeim greiða með því að undirbjóða aðra og ég tel að stjórnvöld eigi að bæði viðurkenna þá staðreynd og nýta sér út í ystu æsar í samningum við fyrirtækin, ætli þau sér að hafa öll eggin áfram í sömu körfunni á annað borð. Ef ekki tekst að ná hagstæðum samningum á einfaldlega að sleppa þessu – það hljóta einfaldlega að vera einhver sársaukamörk á því hvenær það hættir að vera markmið í sjálfu sér að álver rísi einhvers staðar.

Það hvort það sé hlutverk stjórnvalda að hlutast svona til um atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun yfir höfuð (og í þessu tilfelli á svæði sem áður var haldið uppi af erlendum stjórnvöldum) er síðan sérkafli sem ég ætla ekki að fara út í hér og nú. Hið sama má segja um viðhorf forstjóra álfyrirtækisins, sem ráðherra gerir enga athugasemd við, að ríkisstjórn sé ‘kosin’ og að sú ‘kosning’ gefi einhverja vísbendingu um stuðning almennings við hina og þess stefnu ríkisstjórnarinnar.

‘Mitt fólk’, Pírataþingmennirnir Birgitta og Helgi Hrafn, tjáðu sig bæði í dag um lögleiðingu og afglæpavæðingu kannabisefna í kjölfar ummæla Brynjars Níelssonar í þá veru að hann styddi lögleiðingu þeirra. Þar tala þau auðvitað í takt við stefnu Pírata í þessum málaflokki.

Nú er allt sem tengist fíkniefnum auðvitað vandmeðfarið og margir sem hafa á því sterkar skoðanir – en það er einmitt þess vegna sem nauðsynlegt er að geta rætt þessi mál af yfirvegun og hreinskiptni og að opið sé fyrir mismunandi sjónarmið gagnvart þeim.

Sjálfur er ég alveg óhræddur við að styðja Píratastefnuna og mæla fyrir henni, enda byggist hún í meginatriðum á þeirri leið sem Portúgal hefur farið, sem er langt í frá einhver öfgafrjálslyndisstefna. Hið opinbera þar hefur ennþá fulla heimild til að skipta sér að fólki sem er í fíkniefnaneyslu en munurinn felst hins vegar í því hvers eðlis þau afskipti eru. Fólk sem er tekið með fíkniefni á sér er sett í ákveðið ferli þar sem lagt er mat á hvort það þurfi á meðferð að halda. Ef talin er þörf á meðferð hefur viðkomandi val um að annað hvort þiggja hana eða sæta íþyngjandi aðgerðum á borð við sektir, skertar bætur eða missi á starfsleyfi. Haldin er miðlæg skrá um fólk sem hið opinbera hefur afskipti af með þessum hætti og feril þeirra. Þannig er það áfram meðhöndlað í kerfinu – en ekki sem glæpamenn heldur fólk sem hugsanlega á við heilbrigðisvandamál að stríða.

Þetta er það sem er nefnt afglæpavæðing og er að mínu mati eina nálgunin gagnvart neytendum sem vit er í; ég á í raun erfitt með að sjá fyrir mér mótrök gegn henni sem ég myndi taka gild. Ef neytendur fremja aðra glæpi samhliða neyslunni hefur hið opinbera fulla heimild til að taka á þeim sérstaklega og því þarf ekki að glæpavæða neysluna sem slíka. Ég tel að þetta eigi að gilda um öll fíkniefni þó vissulega megi áfram hafa harðari úrræði vegna sumra fíkniefna en annarra.

Síðan má auðvitað deila um hvort ganga ætti enn lengra í frjálsræðisátt og hafa minni afskipti af neytendum, eða jafnvel engin – og þá væri um eiginlega lögleiðingu ofan á afglæpavæðinguna að ræða. Vissulega eru hinir og þessir á þeirri línu að þetta skref ætti að stíga fyrr eða síðar. Það er hins vegar í raun aðskilin umræða sem byggist á frelsissjónarmiðum sem og ákveðnum praktískum sjónarmiðum (Er það til dæmis ekki frekar stór fíll í fíkniefnastofunni að glæpagengi byggi uppgang sinn á auðveldu aðgengi að fíkniefnum að utan, líkt og fram kemur í nýjustu skýrslu Greiningardeildar Ríkislögreglustjóra? Samkrull gengjanna og fíkniefnanna byggist fyrst og fremst á því að þau eru ólögleg, rétt eins og samkrull mafíugengja og áfengis á bannárunum í Bandaríkjunum byggðist á því að áfengið var ólöglegt). Ég sjálfur er nokkuð hallur undir slík sjónarmið en þorri þjóðarinnar hins vegar greinilega ekki, líkt og sjá má í viðhorfskönnunum til lögleiðingar. Ég tel að þann almannavilja beri að virða og taka ríkt tillit til, án þess þó að beygja sig endilega undir hann – enda er öll umræða um þessi mál auðvitað ekkert annað en það enn sem komið er, umræða um núverandi ástand og hvort ástæða sé til að breyta því að einhverju leyti og þá hvaða leyti.

Ég held að enginn sé að fara að ana að einu né neinu þó fólk skiptist á orðum.

Ég var að rekast á alþjóðlega könnun frá því fyrr á árinu um viðhorf fólks til þess hvaða vandamálum heimurinn stendur einna helst frammi fyrir.

Þarna finnst mér einna áhugaverðast að skoða að hvaða leyti Íslendingar skera sig úr meðaltalinu.

Helst er þar að nefna að við Íslendingar teljum fátækt (bil milli ríkra og fátækara), stríð, trúarofstæki og mannréttindi meiri vandamál í áberandi ríkari mæli en meðalheimsborgarinn. Hvað alla þessa þætti varðar erum við meira en helmingi yfir meðaltalinu; 26% Íslendinga telja til dæmis að fátækt sé brýnasta vandamálið á móti 12% meðal heimsbyggðarinnar allrar.

Á móti kemur að við höfum síður áhyggjur af atvinnuleysi, hryðjuverkum, glæpum, menntamálum og alnæmi.

Samanlagt gefur þetta þá mynd af hinum dæmigerða Íslendingi að hann láti sig félagslegan jöfnuð, hófsemi í skoðunum og réttindi fólks miklu varða – ógnir gagnvart þessum gildum lítur hann á sem helstu ógnirnar gagnvart heimsbyggðinni allri. Við komum því sannarlega út sem friðsæl og sanngjörn þjóð í viðhorfum okkar rétt eins og mín eigin tilfinning fyrir henni gefur til kynna. Þarna er mikið til að byggja á þó auðvitað sé alltaf verk að vinna í þessum efnum.

Tónlistarhúsið Harpa er undarleg táknmynd fyrir bruðl ríkisins. Skiljanleg í ljósi þess hversu nýleg og áberandi hún er en síður skiljanleg í ljósi raunverulegra upphæða.

Í fjárlögum þessa árs fær Harpa 564,3 milljónir. Þjóðleikhúsið fær hins vegar til að mynda 709,4 milljónir og Sinfóníuhljómsveit Íslands ein og sér 901,8 milljón.

Auðvitað eykur rekstur Hörpu á útgjöldin en hún ein og sér er ekki jafn rosalegur liður í þeim og ætla mætti af málflutningi sumra. Er ekki betra að skoða hlutina aðeins heildstætt en að þrasa um eitt stakt hús?