Þó margt hafi breyst í stjórnmálamenningunni hér á Íslandi til batnaðar í kjölfar hrunsins er annað sem hefur valdið vonbrigðum. Eitt er það að vantraust í garð stjórnmálanna hefur skilað sér í minnkaðri stjórnmálaþátttöku almennings. Þar hafa flokkarnir sjálfir reyndar ekki hjálpað til (hinn að ýmsu leyti jákvæði Besti flokkur er til dæmis ansi lokaður klúbbur sem hefur ekki virkjað fjöldann þó alþýðlegur sé) en venjulega þegar maður treystir öðrum ekki til að gera eitthvað þá stígur maður fram sjálfur og gerir það.
Nú bregður hins vegar svo við að í stað þess að almenningur nýti tækifærin sem hafa gefist til að krefjast aukinna valda og hreinlega taka þau til sín eftir því sem hægt er, með því að til að mynda taka þátt í flokksstarfi, hefur hann þvert á móti gert auknar kröfur, utan frá, til nákvæmlega sama stjórnmálasviðs og brást þeim. Þegar almenningi finnst stjórnmálamenn bregðast vill hann réttilega fá að stöðva þá af (eins og gerðist t.d. í Icesave-málinu), en það er hreinlega ekki nóg til að breyta landslaginu til frambúðar. Öryggisventlar af þessu tagi tryggja ákveðna aðkomu almennings að stjórnmálunum umfram kosningar á fjögurra ára fresti en þeir tryggja ekki að betri hugmyndir komi fram en þær sem almenningur nær að stoppa af.
Þetta hefur sannast rækilega á þessu kjörtímabili með því að hinar miklu væntingar sem Framsóknarflokkurinn blés upp um að núna væru komnar hinar réttu patentlausnir almúganum til hagsbóta virðast engan veginn standast. Enn og aftur er almenningur farinn að vantreysta ríkisstjórninni og ég geri fastlega ráð fyrir að víða ríki hreinlega allsherjar uppgjöf, ekki síst þar sem þessi ríkisstjórn virðist ekki einu sinni hafa áhuga á að virkja almenning með jafn einföldum leiðum og þjóðaratkvæðagreiðslum.
Ég hef mótað með mér þetta sjónarhorn ekki síst vegna reynslu af því að starfa í stjórnmálum ‘innan frá’. Þó svo að meðal þeirrar hreyfingar sem ég tilheyri, Pírötum, sé margt gott fólk og nóg að gerast er samt ekki nema lítið brot af þeim sem kaus flokkinn virkir meðlimir. Ástandið er án efa svipað annars staðar. Stjórnmálahreyfingar eiga að mínu mati hins vegar ekki að vera tiltölulega litlir klúbbar heldur fjöldahreyfingar. Svo ég plöggi aðeins Pírötum þá eru þeir beinlínis hugsaðir þannig; Píratar vilja virkja grasrótina. Hún sprettur best þegar hún er vökvuð af sem flestum. Hérna vil ég líka minna á að sinnuleysi almúgans gagnvart stjórnmálunum gefur tali um að beint lýðræði virki ekki í raun byr undir báða vængi, eins og sjá má hér. Eins og ég segi þá helst þetta svo mikið í hendur. Ef almúginn er ekki duglegur við að nýta sér þær leiðir sem bjóðast til að hafa áhrif á stjórnmálin er í sjálfu sér ekki svo óeðlilegt að stjórnmálamenn telji sig hreinlega þurfa að bera ábyrgðina (eða með öðrum orðum hafa völdin).
Ég veit hins vegar vel að það er fullt af fólki sem hefur áhuga á að leggja sitt af mörkum bara ef það skynjar að það er velkomið. Í stuttu máli vil ég hreinlega hvetja alla sem hafa áhuga á og tíma til að taka þátt í flokssstarfi til að gera það. Finnið ykkur eitthvað sem höfðar til ykkar og hreinlega bankið upp á dyrnar og sjá hvernig ykkur er tekið. Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar og það er alveg kjörinn tími til að reyna þetta þar sem í kringum kosningar fer flokksstarf á fullt.
Ekki húka úti í kuldanum og kvarta þegar þið getið komið inn í hlýjuna og kvartað þar!